Ljósmyndir Þorláks Sverrissonar

Þorlákur Sverrisson, afi minn, var fæddur í Klauf í Meðallandi 3. apríl 1875. Hann lést í Vestmannaeyjum 9. ágúst 1943.
Þorlákur var kvæntur Sigríði Jónsdóttur í Skálmarbæ í Álftaveri og bjuggu þau þar frá 1902 til 1911, en þá fluttu þau til Víkur í Mýrdal þar sem Þorlákur rak verslun til ársins 1925 er hann og fjölskylda hans fluttu til Vestmannaeyja. Fjölskyldan bjó fyrst á Heiði í Eyjum eða þangað til Þorlákur keypti Hof, sem var sýslumannssetur í Eyjum, tvílyft timburhús byggt 1907 og meðfylgjandi tún. Hann stundaði lítils háttar búskap þar og hélt hesta. Hofstúnið lá meðfram Urðarvegi og náði rétt austur fyrir þurrkhúsið. Hofið fór undir hraun í eldgosinu í Vestmannaeyjum 1973.

Í tilefni af flutningunum til Eyja birti hann eftirfarandi tilkynningu í Morgunblaðinu 28. ágúst 1925:

„Tilkynning.
Þar eð jeg hefi flutt búferlum
frá Vík í Mýrdal til Vestmanna-
eyja, óskast blöð og tímarit til
mín framvegis send mjer hingað,
og er utanáskrift mín þessi: Þor-
lákur Sverrisson, Heiði, Vest-
mannaeyjum.
Vestmannaeyjum, 22. ágúst 1925.
Þorlákur Sverrisson."

Í Vestmannaeyjum rak Þorlákur verslun í Turninum við Strandveg til dauðadags. Grein um Þorlák og Turninn birtist í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja 1978 eftir Einar H. Eiríksson, tengdason Þorláks. Í dagblaðinu Vísi frá 2. okt. 1978 er eftirfarandi frásögn af upphafi verslunar Þorláks í Eyjum:

„„Söluturninn var opnaður árið 1927 og er því orðinn rúmlega fimmtugur. Hann stóð við Strandveginn, á svipuðum slóðum
og fiskverkunarhús Ísfélagsins stendur nú. Það var Þorlákur Sverrisson sem fyrstur verslaði í Turninum. Hann hafði hug á 
því að veita sjómönnum sérstaka þjónustu og hafa opið lengur fram eftir en aðrar verslanir. Leyfið fékkst til þess en gegn 
því að Turninn sæi um að koma veðurfréttum til almennings. Hér fyrr á árum voru veðurskeytin hengd upp á kassa á 
símstöðvarhúsinu. Björgunarfélagið vildi að þau yrðu sett einhvers staðar upp þar sem almenningur þyrfti ekki að leggja 
lykkju á leið sina til að sjá þau. Söluturninn varð fyrir valinu, því fram hjá honum lá leið flestra sem voru að fara heim úr 
beituskúrum og aðgerðarhúsum. Þorlákur sendi því dóttur sina eftir skeytunum og hann skrifaði þau upp á sérstakt eyðublað 
og hengdi út í gluggann. Það fór svo eftir væntanlegu veðri hvernig blöðin voru á litinn. Ef vont veður var í aðsigi voru skeytin á 
rauðum pappír. 
Einnig kom Þorlákur upp loftvog sem hann hafði í glugganum. Veðurfréttir voru settar í glugga Turnsins nokkuð mörg ár eftir 
stríð ", sagði Þórarinn [Þorsteinsson - Tóti í Turninum]"

Börn Sigríðar og Þorláks voru Sigríður Guðrún, f, 13. apríl 1902, Óskar Jón, f. 5. nóv. 1906 og Guðrún f. 20. sept. 1920 en hún var móðir mín. Þau eru nú öll látin.

Þorlákur lærði ljósmyndun í Reykjavík og tók flestar myndir sínar í Vík og nágrenni. Hann hætti hins vegar ljósmyndun fljótlega eftir að hann kom til Vestmannaeyja.

Ekki er vitað hve margar myndir Þorlákur tók en í eigu Ljósmyndasafns Íslands eru 30 glerplötur, aðallega mannlífsmyndir úr Vík í Mýrdal og nágrenni. Í eigu minni eru um 65 glerplötur og Byggðasafn Vestmannaeyja á óþekkt magn glerplatna, en ekki er vitað hve margar plötur fóru þangað þar sem þeim var ekki haldið sér í safninu né Þorlákur skráður höfundur myndanna. Byggðasafnið í Skógum á einnig myndir úr safni Þorláks. Þá fékk Ólafur Jónsson úr Vík í Mýrdal lánaðar plötur úr safni Þorláks, en örlögin höguðu málum þannig að glerplöturnar fóru með skipi til lands og komust þær á leiðarenda, en Ólafur sjálfur fór með flugi en flugvélin fórst yfir Faxaflóa. Vegna fráfalls Ólafs rugluðust því plötur Þorláks saman við plötur Ólafs og er ekki nákvæmlega vitað hvor á hvað. Þetta var árið 1951. Reyndar var Ólafur farmaður og tók lítið af myndum í Vík, svo hugsanlega eru elstu myndirnar úr Vík sem í safni hans eru, komnar frá Þorláki. Um þetta er þó erfitt að fullyrða nokkuð.

Þorlákur vann aldrei við sína ljósmyndun á stofu og eru flestar mynda hans teknar úti, af fólki við störf eða af húsum í sveitinni. Því eru þetta merkilegar mannlífsmyndir sem hann hefur tekið og lýsa aldarfari mjög vel. Við mundum kalla margar þessara mynda „snapshots“ á erlendum málum nú til dags. Nokkrar mynda hans eru af fjölskyldu hans, konu og börnum. Hann virðist einnig hafa stundað nokkuð að taka eftir myndum annarra einhverra hluta vegna.

Að eigin sögn hafði Þorlákur tekið myndir af Kötlugosinu frá fyrsta degi en þær myndir komu aldrei fyrir almennings sjónir, þrátt fyrir áskorun Kjartans Guðmundssonar ljósmyndara í Morgunblaðinu árið 1919. Þá auglýsti Kjartan sýningu á ljósmyndum þeim sem hann hafði tekið af Kötlugosinu og fullyrti þar að þetta væru einu myndirnar sem til væru af gosinu. Þorlákur leiðrétti það og sagðist hafa tekið myndir frá byrjun goss en fullyrti að Kjartan hefði ekki komið austur fyrr en liðið var á gostímann. Þessi skrif þeirra má lesa í Morgunblaðinu, fyrst um sýninguna 21. janúar 1919, skrif Þorláks á sama stað 16. mars sama ár og svar Kjartans 19. maí það ár.

Árið 1975 gáfu börn Þorláks Jarðfræðideild Háskóla Íslands glerplötur með myndum af Kötlugosinu í tilefni af því að 100 ár voru liðin frá fæðingu Þorláks. Fram kemur í gögnum deildarinnar að tvær eftirtökur hafi verið gerðar af þeim plötum og annað settið sé hjá Jarðfræðideildinni en hitt hafi farið til séra Óskars J. Þorlákssonar, sonar Þorláks. Um tíma fundust hvorki myndirnar né glerplöturnar. Skjalasafn sr. Óskars er komið á safn og hefur ekki unnist tími né tækifæri til að skoða það til að athuga hvort þessar myndir séu þar og sama er að segja um safn Dr. Sigurðar Þórarinssonar. Glerplöturnar fundust loks í fórum Raunvísindastofnunar í janúar 2013.

í Lesbók Morgunblaðsins 7. janúar 1989 er löng grein eftir sr. Óskar J. Þorláksson um Kötlugosið 1918 og eru með greininni birtar fjórar myndir sem Þorlákur tók af gosinu. Niðurlag greinar sr. Óskars er eftirfarandi:

„Myndir þær, sem fylgja þessari grein, voru teknar af Þorláki Sverrissyni, kaupmanni, sem þá fékkst nokkuð við ljósmyndasmíði og voru þær teknar á fyrstu dögum gossins og hafa þær ekki birtst áður. Alls tók hann um 20 myndir af gosinu og eru myndaplöturnar nú í eigu jarðfræðideildar Háskóla Íslands."

Örfáar myndir á pappír fann ég í fórum mínum af Kötlugosinu, þær sem hér birtast, en ég hef hins vegar ekki hugmynd um dagsetningu hverrar fyrir sig og eru þær því ekki í neinni röð hér fyrir neðan. Þær skannaði ég eftir myndum sem Þorlákur hefur gert eftir glerplötunum sem nú hafa komið í leitirnar hjá Raunvísindastofnun.

Glerplöturnar verða nú afhentar Ljósmyndasafni Íslands til varðveislu skilst mér. Þetta þýðir að nú er unnt að skera úr um hvaða Kötlumyndir Þorlákur tók og hverjar voru teknar af Kjartani Guðmundssyni ljósmyndara, en einhver ruglingur hefur verið þar að lútandi.

Aðrar ljósmyndir Þorláks Sverrissonar sem eru á Þjóðminjasafninu/Ljósmyndasafni Íslands má sjá hér: Ljósmyndir

Gert 7. nóvember 2011 og lagfært 13. mars 2017.

Eiríkur Þór Einarsson
eirikur@eirikur.is

Myndir frá Kötlugosi 1918

smellið á myndirnar til að fá þær stærri

Kötlugosið 1918

Kötlugosið 1918

Kötlugosið 1918

 

Kötlugosið 1918

Kötlugosið 1918

Kötlugosið 1918

Kötlugosið 1918

Kötlugosið 1918

Kötlugosið 1918

Kötlugosið 1918

Kötlugosið 1918